Pestó úr sólþurrkuðum tómötum, basiliku og sítrónumeliss

Pestó úr sólþurrkuðum tómötum, basiliku og sítrónumeliss

Vonandi hafið þið prófað að gera sjálf pestó.  Það er einfaldlega miklu, miklu betra en það sem fæst keypt.  Ég var ekki sérstaklega hrifin af pestó þegar það fór að fást í verslunum og bruschettaæðið stóð sem hæst í matarboðum. 

Alveg þar til ég prófaði að gera ferskt basilikupestó sjálf.  Ég man enn þá eftir því að hafa dáðst að litnum, hversu fallega grænt það var, opnað blandarann og fundið lyktina af basilikunni, sítrónunni, hvítlauknum og ólífuolíunni streyma á móti mér og svo bragðið.  Loksins skildi ég hvað fólk var að tala um!

Þessi uppskrift að pestó-i með sólþurrkuðum tómötum, basiliku og sítrónumeliss er frá eldri dóttur minni.  Hún hefur verið að venja fjölskylduna á grænmetisfæði og þar að leiðandi er enginn parmesan ostur í pestó-inu. Ástæðan er víst að hleypiefnið í ostum er alla jafnan framleitt úr dýramögum.

Pestó úr sólþurrkuðum tómötum, basiliku og sítrónumeliss

1 dós sólþurrkaðir tómatar í olíu, saxaðir

2-3 handfylli af basiliku, söxuð

1 handfylli af sítrónumeliss

3 msk furuhnetur

3 hvítlauksrif, söxuð fínt

2 msk sítrónusafi

Sjávarsalt, að smekk

2-3 msk ólífuolía

Venjulega er pestó-ið gert í matvinnsluvél eða blandara.  En staðan á heimilinu í sumar hefur verið þannig að blandarinn gaf upp öndina og mér tókst að brjóta óbrjótanlegu skálina í matvinnsluvélinni og hef verið að bíða eftir nýrri skál. 

Hún saxaði því sólþurrkuðu tómatana, basilikuna, furuhneturnar og hvítlaukinn í pestó-ið og bætti við söxuðu sítrónumeliss sem gaf því dásamlegan sítrónukeim til viðbótar við sítrónusafann, saltið og ólífuolíuna.  Það getur líka verið ágætt að rífa sítrónubörkinn út í.  Muna að smakka sig áfram, smekkur okkar fyrir salti og sýru er misjafn.

Svo var gott súrdeigsbrauð skorið í sneiðar, ólífuolía borin á, brauðsneiðarnar hitaðar létt í ofni og pestó-ið sett yfir.  Kannski smá viðbót af sjávarsalti.

Enn eitt dæmið um að matargerð með góðu hráefni þarf ekki að vera flókin til að vera fullkomin.

Njótið!Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *