Tómatpæ með hvítlauksrjómaosti, sítrónumeliss, myntu og basiliku

Tómatpæ með hvítlauksrjómaosti, sítrónumeliss, myntu og basiliku

Pædeig hreinlega hræddu mig lengi vel.  Uppskriftirnar eru ekki flóknar, en af einhverri ástæðu urðu pæin mín aldrei stökk og gullin líkt og á myndum í matreiðslubókum og á uppskriftavefsíðum.  Mun oftar blaut, alltof þykk og hreint ekki góð.

En líkt og með flest allt annað þá snýst árangur í lífinu um úthald.  Það gildir ekki hvað síst um matreiðslu.  Ef laukurinn brennur við eða sósan verður kekkjótt þá er bara að reyna aftur.  Stundum dugar jafnvel sigti…

Allavega, hmmm… dásamlega gullin og stökk pæ.  Trixið virðist vera að vinna nógu hratt.  Smjörið þarf að vera kalt, skorið í mátulega stóra bita.  Vatnið líka.  Matvinnsluvélin hjálpar sannarlega, en ég handhnoða svo til að ná deiginu saman.  Alls ekki hnoða mikið og leyfa því svo að jafna sig í ísskáp, að lágmarki 30 mínútur.  Helst lengur.  Fletja svo þunnt út (muna að setja nóg hveiti undir og á kökukeflið svo það festist ekki).

Ég er enn þá að vinna í hvernig eigi að baka pædeigið, hliðarnar skríða alltof oft niður eftir hliðum formsins þannig að yfirleitt geri ég „gallette“ sem er pæ án bökunarforms, deigið flatt út, fyllingin sett á og kantarnir settir yfir fyllinguna.  Finnst svona frjálst form einnig fallegt. 

Fátt er sumarlegra en tómatpæ, ekki hvað síst þegar úrvalið er jafn gott í stórmörkuðunum og raun bar vitni fyrir helgi. 

Tómatpæ með hvítlauksrjómaosti, sítrónumeliss, myntu og basiliku

(fyrir 4)

Pædeig

  • 210 g hveiti
  • 125 g smjör, skorið í bita
  • ½ tsk salt
  • 1 egg
  • 2-3 msk kalt vatn

Fylling

  • 1 dós Philadelphia rjómaostur með hvítlauk og kryddjurtum
  • 6 stórir tómatar
  • 4-5 kokteiltómatar
  • Handfylli af sítrónumeliss, myntu og basiliku, rifið gróft
  • Salt og pipar að smekk

Hveiti og salt er sett í matvinnsluvél, helst deighníf en venjulegur hnífur hefur einnig virkað.  Smjörinu bætt við og púlsað nokkrum sinnum.  Eggið og kalda vatnið hrært saman og bætt út í, púlsað aftur nokkrum sinnum.  Deiginu er hellt á hreint borð, og hnoðað létt til að ná saman mestu af hveitinu við smjörið og vökvann.  Mótað í ferhyrning og sett í skál með hreinu viskustykki yfir þar sem plastfilmur eru ekki lengur leyfðar á heimilinu.  (Nota stundum maíspokana, þegar enginn sér til.) 

Geymt í kæli í 30 mínútur, að lágmarki , til að leyfa deiginu að jafna sig.

Hitið ofninn í 190°C.

Þegar deigið er tilbúið er það flatt út þunnt, gæta að því að vinna hratt og hafa nóg hveiti undir svo það festist ekki við borðplötuna.  Sett á bökunarpappír og á bökunarplötu.

Rjómaosturinn er hrærður létt og borinn á deigið þannig að 5 cm kantur sé allt í kring.  Tómatarnir skornir í sneiðar og raðað hringinn, kryddjurtunum dreift yfir, saltað og piprað.  Brettið svo kantana upp á ysta lagið af tómötunum.  Það getur einnig verið gott að setja smá hrært egg eða bráðið smjör yfir deigið til að það verði extra gullið.

Bakað í 30 mínútur eða þar til deigið er bakað og tómatarnir bakaðir í gegn.

Grænt salat er fullkomið með og léttir einnig grænmetisbeðunum sem eru yfirfull þessa dagana.

Njótið.