Kartöfluvöfflur með þremur fyllingum

Kartöfluvöfflur með þremur fyllingum

Ég elska kartöflur, -skilst að það sé í genunum. Oft hefur kartöflugratín með smá skinku eða spínati verið aðalrétturinn á heimilinu, sem og fylltar bakaðar kartöflur svo ég tali nú ekki um djúpsteiktar kartöflur.

Hér er nýjasta tilraunin með kartöflur, dásamlega bragðgóðar og dúnmjúkar kartöfluvöfflur. Held að ég muni héðan af alltaf baka þær svona.

Kartöfluvöfflur
1 bolli hveiti
2 msk sykur
2 tsk lyftiduft
½ tsk salt
1-1 ½ bolli kartöflumús, eða 1 stór soðin bökunarkartafla eða 4-5 venjulegar kartöflur, soðnar og án hýðis
1 bolli léttmjólk
2 egg
5 msk matarolía
1 tsk vanilludropar, má sleppa

Hveitið, sykurinn, lyftiduftið og saltið blandað saman í skál. Kartöflumúsinni blandað saman við mjólkina og olíuna, eggin hrærð saman við ásamt vanilludropunum. Blandið létt saman við hveitiblönduna. Ef þið notið soðna kartöflu, stappið hana, – best er að stappa hana í kartöflupressu til að deigið verði sem léttast. Einnig hægt að pressa hana í gegnum gróft sigti.

Fylling á vöfflur (f. tvær vöfflur hver uppskrift)

Skinku- og sveppafylling
Olía
3 skinkusneiðar, saxað í bita
3-4 sveppir, skornir í sneiðar
Laukur, skorinn fínt
2 egg, steikt á pönnu í smjöri á lágum hita
Salt og pipar
Graslaukur, saxaður fínt

Skinkan, sveppirnir og laukurinn svissað létt saman á pönnu. Saltað og piprað. Eggin steikt, graslaukurinn saxaður fínt. Skinkublandan sett á vöffluna, eggið yfir og graslauknum dreift yfir.

Nýrnabauna og tómatfylling
Olía
½ bolli nýrnabaunir, soðnar
½ laukur, skorinn fínt
1 tómatur, skorinn í báta
2 msk hummus

Olía sett á pönnu, laukurinn svissaður létt í olíunni. 
Nýrnabaununum bætt út í og hitaðar. Tómatbátarnir settir síðast út á pönnuna. Hummusinn smurður á vöffluna og nýrna- og tómatblandan sett yfir.

Eftirréttavaffla
250 ml rjómi, hrærður létt
4 msk jarðaberjasulta

Ég gat ekki gert upp á milli þessara þriggja fyllinga,- hvað með ykkur?

Muna svo að njóta