Súpur eru dásamlegar. Ég er að gera mér æ betur grein fyrir því, ekki hvað síst eftir að ég fór að elda þær mun oftar í starfsnáminu, og já, í miklu meira magni en áður. Þannig getur eilítið þreytt grænmeti neðst í grænmetisskúffunni orðið að seðjandi og bragðgóðri máltíð með nánast engri fyrirhöfn.
Þetta á við bæði í litlum og stórum eldhúsum þar sem áhugi er á að nýta vel gott hráefni og draga úr matarsóun.
Alls ekki fleygja heldur brauði sem er orðið eilitið hart eða þurrt, heldur skerðu það í teninga og baðaðu vel upp úr góðri ólífuolíu. Nokkrar mínútur í ofninum breytir því svo í dýrindis brauðteninga með súpunni.
Gulrótar- og tómatsúpa með brauðteningum
Brauðteningar
2-3 brauðsneiðar, skornar í teninga
3-4 msk olífuolía
Hitið ofninn í 180°C. Baðið brauðteningana vel upp úr ólífuolíunni. Setjið bökunarpappír á ofnplötu og dreifið vel úr teningunum á plötunni. Bakið þar til þeir eru orðnir gullinbrúnir. Takið út úr ofninum og látið kólna á meðan súpan er elduð.
Gulrótar- og tómatsúpa
1 msk ólífuolía
1 stk laukur, saxaður
1 dós niðursoðnir tómatar, afgangspizzasósa eða 3-4 ferskir tómatar
4 gulrætur, skrældar og skornar gróft
1 grænt chili, saxað gróft, hreinsað af fræjum
1/2 tsk mulið kóriander
1 tsk mulið cumin
1 stk grænmetissoðteningur
1 dós kókosmjólk
5 dl vatn
Salt og pipar að smekk
Rifinn ostur, má sleppa
Laukurinn er mýktur í olíunni. Tómatnum og gulrótunum er bætt út í ásamt chili-inu og kryddinu. Látið mýkjast stutta stund áður en vökvanum er bætt út í ásamt grænmetissoðteningnum.
Soðið þar til grænmetið er orðið mjúkt, og þá blandað saman með töfrasprota. Bætið við vökva ef súpa er of þykk, saltið og piprið að smekk.
Súpan sett í skál og teningunum dreift yfir. Ef ykkur finnst það gott getur verið ágætt að setja smá ost yfir.