Mexíkóskir maískólfar

Mexíkóskir maískólfar

Þegar fer að líða á sumarið poppa upp heilir maískólfar í grænmetisborðum stórmarkaðanna. Ég veit ekki hvað það er sem dregur mig að þeim. Kannski minningin af lúxusnum sem það var að fá maís með KFC kjúklingnum þegar ég var krakki.

Ég var orðin aðeins eldri þegar ég fór að sjá þá ferska í stórmörkuðunum og uppgötvaði hversu dásamlegir þeir eru grillaðir með bræddu smjöri og góðu salti.

Þetta er hins vegar nýleg uppgötvun, að bæta við einfaldri salatsósu , – en þessi einfalda salatsósa með majónesi og sýrðum rjóma, papriku og límónu lyftir grilluðu gullnu maískólfunum upp í nýja bragðvídd.

Ekki er verra að setja smá parmesan eða vel þroskaðan Tind frá Óðalsostum yfir ef þú finnur hann.

Grillaður maís með mexíkóskri salatsósu

3-4 heilir maískólfar
½ bolli majónes
1 bolli sýrður rjómi (helst 36%)
1 tsk sterk reykt paprika
Safinn úr hálfri límónu
1/3 bolli smjör, brætt
Salt, eftir smekk

Grillið hitað. Grillið maísinn þannig að hann sé eilitið brenndur, snúið þannig að hann grillist á öllum hliðum. Blandið saman majónesinu, sýrða rjómanum og reyktu paprikunni. Berið smjörið á maísinn þegar búið er að taka hann af grillinu, dreifið salatsósunni yfir. Saltið og setjið smá í viðbót af paprikunni yfir sósuna.

Ef þið eigið, þá getur verið gott að setja smá graslauk eða kóriander yfir maísinn. Einnig getur verið gott að setja parmesanost saman við salatsósuna eða dreifa yfir maísinn, – en alls ekki nauðsynlegt.

Njótið!