Kjúklingur marineraður í harissa og grískri jógúrt ásamt nýjum kartöflum, rauðlauk og kokteiltómötum og chimchurri sósu

Kjúklingur marineraður í harissa og grískri jógúrt ásamt nýjum kartöflum, rauðlauk og kokteiltómötum og chimchurri sósu

„Láttu ofninn vinna vinnuna fyrir þig, eins og hægt er,“ var eitt af fyrstu ráðunum sem ég fékk þegar ég byrjaði í starfsnáminu.  Þetta er frábært dæmi um veislumáltíð sem gerir einmitt þetta. Maturinn eldast í rólegheitunum í ofninum á meðan þú slakar á með góðan kaffibolla eða skreppur í góða sturtu.

Svo diskar maður upp kjúklinginn á nokkrum mínútum ásamt grænmetinu, dreifir chimchurri sósunni nett yfir, – og voilà!

Fullkomin máltíð þegar maður dröslast heim eftir langa vaktatörn þar sem allt virtist fara úrskeiðis, kjötið ekki nægjanlega soðið, súpan kekkjótt og af einhverri ástæðu meira og minna í hárinu og maður þarf að byrja á öllu upp á nýtt 😉

Kjúklingur marineraður í harissa og grískri jógúrt ásamt nýjum kartöflum, rauðlauk og kokteiltómötum og chimchurri sósa

(Fyrir 4)

  • 1 stk kjúklingur
  • 2 msk harissa
  • 3 msk grísk jógúrt
  • 5-6 nýjar millistórar kartöflur
  • 1 rauðlaukur
  • 1 sítróna
  • 6-8 stk kokteiltómatar, skornir í helminga
  • 1-2 msk ólífuolía
  • Salt og pipar eftir smekk

Finnið til ofnfast form til að baka kjúklinginn og grænmeti í.  Blandið saman harissa og grískri jógúrt og berið vel á kjúklinginn.  Nýlega var mér bent á að nýta þarna tækifærið til að beygja vængina aftur fyrir hálsinn á fuglinum, og losa um liðamótin á leggjunum til að fletja út fuglinn á meðan hann eldast og auðvelda skurð eftir á.

Geymið í ísskáp í 1-2 klst, eða yfir nótt. Ég hef líka svindlað stundum og makað þessu 10-15 mínútum áður en ég elda kjúklinginn, og það hefur verið í fína lagi. 

Stillið ofninn á 180°C.  Skerið grænmetið, setjið í skál með smá ólífuolíu ásamt salti og pipar.  Berið vel á grænmetið. 

Takið kjúklinginn úr kæli og dreifið grænmetinu í kringum fuglinn.  Setjið í ofnin í 1 -1,15 klst eða þegar stungið er í fuglinn og vökvinn sem kemur út er glær. 

Chimchurri

  • 1 stór shallotlaukur, fínt saxaður
  • 1 rautt chili, fínt saað
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 1 msk capers (má sleppa)
  • 125 ml balsamikedik
  • 1 msk hvítvínsedik
  • 1 tsk sjávarsalt
  • 1-2 handfylli kóriander, graslaukur, steinselja, mynta, sítrónumeliss og basilika (eða það sem þú átt til af kryddjurtum, – elska grænmetisbeðin mín 😉)
  • 180 ml ólífuolía

Blandið lauk, chili, hvítlauk og capers saman við edikið ásamt salti og látið standa um stund.  Capers kemur úr salsa verde, en mér finnst gott að hafa smá súrt saman við grænu sósuna mína, sem skýrir af hverju ég bætti við hvítvínsedik þar sem balsamikedikin var ekki alveg nógu súr að mínu mati.

Saxið gróft kryddjurtirnar.  Setjið saman við edikina og laukinn og hrærið út í ólífuolíunni með gaffli. 

Finnst jafnvel enn þá betra ef sósan er látin standa um stund, jafnvel í ísskáp yfir nótt, þannig að endilega nýta afganginn t.d. á hrærð egg eða á ristað brauð um morguninn eftir eða fyrir nætursnarlið. 

Njótið!