Ein ódýr og einföld

Á ferð um Frakkland fyrir nokkrum árum keypti ég franska matreiðslubók, Savoir tout faire en cuisine  sem er 1000 síðna bók um nánast allt í franska eldhúsinu.   Bókin lá svo upp í hillu og safnaði ryki þar til nýlega.  Þökk sé Google translate var rykið dustað af henni.  Hér er ein einföld og bragðgóð úr bókinni góðu sem krefst ekki mikillar eldamennsku, – sem sagt fullkomin máltíð fyrir miðja vinnuviku.

Épinards en barbouillade

Fyrir 4. Undirbúningur 10 mín. Eldunartími 40 mín.

Innihald
1 kg ferskt spínat
1 stór gulur laukur
3 msk ólífuolía
500 g kartöflur
2 stk stjörnuanís
1-2 hvítlauksgeirar
4 egg
Brauðsneiðar
Salt og pipar

Hitið ofninn í 180°C. Hitið vatn í potti og saltið.  Hreinsið spínatið og sjóðið í smástund í vatninu.  Hitið olíuna í pönnu sem þolir ofn.  Saxið laukinn og svissið á pönnunni.  Passið að sjóða ekki spínatið of lengi, hellið því í sigti og geymið. Skrælið kartöflurnar og skerið í sneiðar.  Bætið pressuðum hvítlauk og kartöflunum við á pönnuna með lauknum, saltið og pipri auk þess að bæta við tveimur stjörnuanís.  Blandið vel.  Saxið spínatið gróflega og setjið yfir kartöflurnar.  Hellið sjóðandi vatni yfir þannig að það hylji kartöflurnar og setjið inn í ofn í 30-40 mín.  eða þar til kartöflurnar eru eldaðar í gegn.  Takið úr ofninum og brjótið fjögur egg yfir spínatréttinn og setjið aftur í ofninn til að hita.  Alls ekki of lengi, því eggin eiga að vera linsoðin.

Ristið 1-2 brauðsneiðar á mann og setjið á disk.   Setjið réttinn með einu eggi ofan á brauðsneiðarnar.

Bókin góða leggur til matseðil.  Að byrja á einföldu laukpæi (pissaladière) og ljúka máltíðinni með ferskum ávöxtum og hunangi.  Það má spara tíma og kaupa smjördeigið (375 g), sérstaklega í miðri viku.  Skerið 3 stóra lauka í þunnar sneiðar og eldið á pönnu í 20 mínútur þar til þeir eru orðnir ljósbrúnir, hrærið oft. Kryddið með smá timian eða hvítlauk. Fletjið út deigið, deifið lauknum og kryddi yfir. Bakið í 20-30 mín í 180°C þar til deigið er gullið og hefur lyft sér.

Verði ykkur að góðu.

(Birtist fyrst í DV)

Crème brûlèe

Pantið þið eftirrétti á veitingastöðum? Ég sleppi því oft. Mér finnst þeir oft vera versti hluti máltíðarinnar. Forréttirnir og aðalréttir hafa verið góðir, kannski ekki fullkomnir en engin ástæða til að kvarta. Svo kemur eftirrétturinn.

Súkkulaðikakan of þurr. Vantar vanillubragð í créme brûlèe. Skammturinn alltof stór. Meira dúll en endilega bragð og svo framvegis.

Gallinn við vera svona dyntótt þegar kemur að eftirréttum er að ég fæ ekki að borða þá. Nema ég geri þá sjálf. Þá get ég ekki kennt neinum öðrum um ef illa til tekst.

Eins og til dæmis crème brûlèe. Crème brûlèe er gert úr fjórum hráefnum. Uppskriftin gæti ekki verið einfaldari, en það þýðir að það er ekkert sem hægt er að fela sig á bakvið. Ekkert dúllerí, engar fínar skreytingar, ekkert krúðerí.

Bara rjómi, vanilludropar, sykur og eggjarauður. Plús ást og alúð.

Hitið ofninn í 150°C.

Rjóminn og vanilludroparnir eru settir í pott og hitað upp að suðu. Alls ekki sjóða. Kippa af hellunni þegar rjóminn er alveg að koma að suðu, lækka hitann í það lægsta og hitið varlega áfram í 5 mínútur.
Á meðan er sykurinn og eggjarauðurnar látnar hrærast vel saman í hrærivél ( í skál sem þolir hita). Hrært þar til eggja og sykurblandan verður ljós og loftkennd.

Hitinn hækkaður aftur undir rjómablöndunni, alveg að suðu og kippt af hellunni.

Látið hrærivélina hræra áfram, gott að hafa lok á vélinni og hellið rjómablöndunni saman við, jafnt og þétt þar til blandan hefur þykknað eilítið. Sigtið í könnu og hellið í lítil eldföst form (sk. ramekins).
Setjið stórt eldfast form í ofninn með litlu formunum. Hellið til hliðar við litlu formin heitu vatni, upp að ca. miðjum formunum.

Bakið í 40-45 mín eða þar til eggjabúðingurinn er orðinn fastari fyrir, en samt hreyfanlegur í miðjunni. Takið úr ofninum og kælið þar til bera á hann fram.

Rétt áður en hann er borinn fram, setjið smá sykur eða púðursykur yfir og setjið undir grillið í ofninum. Gætið að sykurinn brenni ekki, takið úr ofninum og kælið í nokkrar mínútur og berið svo fram.

Crème brûlèe
 
Undirbúningstími

Eldunartími

Heildartími

 

Höfundur:
Fyrir: 6

Hráefni
 • 500 ml rjómi
 • 2 tsk vanilludropar
 • 100 gr. sykur
 • 6 eggjarauður

Leiðbeiningar
 1. Sjá að ofan.

 

Rækju og núðlusúpa

Fjölskyldan kom þreytt heim.  Langt augnablik leið á meðan ég velti fyrir mér hvort ég ætti að skjótast á næsta skyndibitastað.  Nei, – prófum súpuna frá Jamie samkvæmt planinu.

Sú yngsta tók að sér eldamennskuna á meðan mamma hjálpaði til og leiðbeindi.

Fyrst var vatn hitað fyrir núðlurnar.  Svo kjúklingasoðið ( 1 lítri vatn og 2 teningar) hitað í öðrum potti. Á meðan vatnið hitnaði var kínakálið og vorlaukurinn skolaður og saxaður.  Tvö hvítlauksrif söxuð fínt þar sem ég fann ekki hvítlaukspressuna.  Þessu var svo skutlað út í soðið.  Saxaði svo 1 stk rautt chili og ferskt kóriander og sett í tvær skálar.  Núðlurnar soðnaðar á 4 mínútum. Rétt undir lokin var soðnum risarækjum bætt út í súpuna.  Núðlurnar settar í skálar og súpan sett yfir.

Það eina sem vantaði var eilítið salt eða 1 kjúklingateningur í viðbót. Prófa það næst.

Þetta tók styttri tíma en ferðin á næsta skyndabitastað og verður sannarlega eldað aftur.

Matseðill vikan 15. júlí-21. júlí 2013

Þessi vika er Jamie Oliver þemavika 🙂 – en allar uppskriftirnar fyrir utan hið hefðbundna pizzakvöld eru úr tímaritinu hans.

Mánudagur: Rækju og núðlusúpa

Þriðjudagur: Kjúklingabaunakarrí  m/ naan og raita

Miðvikudagur: Spínat og ricotta cannelloni m/ fersku salati

Fimmtudagur: Bakaður fiskur m/ kartöflum og tómötum

Föstudagur: Pizzakvöld

Laugardagur: Fisksúpa

Sunnudagur: Stroganoff m/ núðlum

Innkaupalistinn er í vinnslu.

Matseðill vikan 3.-9. júní 2013

Mánudagur: Hrísgrjónagrautur m/ slátri.  Þriðjudagur: Quesadilla m/ svörtum baunum og grænmeti. Miðvikudagur: Fiskpæ m/ hrásalati. Fimmtudagur: Fiskibollur m/ brúnni sósu og soðnum kartöflum.  Föstudagur: Pizzakvöld.  Laugardagur: Læri m/ kartöflugratín, rauðkáli og ostasósu.  Sunnudagur: Fiskisúpa.

 

Matseðill vikan 27. maí-2. júní 2013

Mánudagur: Pappardelle með beikoni og sveppumÞriðjudagur: Plokkfiskur m/ rúgbrauði. Miðvikudagur: Afmæliskvöldverður með eiginmanninum og dætrunum. Fimmtudagur: Steiktur fiskur með soðnum kartöflum. Föstudagur: Pizzakvöld. Laugardagur: Souvlakia m/ tzatziki.  Ofnbakaðar kartöflur, pita brauð og ferskt kál. Sunnudagur: Súpa með sætum kartöflum og kókosmjólk og grófu brauði.

Innkaupalisti_vika_27_mai-2_juni_2013

Ráðherrabakstur

Þingflokksfundur hafði verið boðaður um kvöldið. Fyrir fundinum lá að taka ákvörðun um skipan ráðherra Framsóknarflokksins. Fundur var með Sigmundi Davíð seinna um daginn. Síminn hætti ekki að hringja. Vinir, ættingjar, samherjar og fjölmiðlamenn að spyrja hvað væri að frétta.

Sama svarið beið allra: „Þetta kemur allt í ljós.“

Á endanum tók ég ákvörðun. Ég yrði að að gera eitthvað. Hætta að svara símanum, hætta að hljóma eins og biluð plata og byrja að baka.

Valið stóð á milli að baka brownies eða pekanhnetu-, kókos- og súkkulaðibitakökur að hætti My baking addiction.

Fyrir valinu urðu pekanhnetu, kókos og súkkulaðibitakökurnar. Tvöföld uppskrift. Hlyti að dekka töluverðan tíma.

Súkkulaðibitakökur krefjast einbeitingar. Fullt af hlutum geta misfarist, eins og svo margt í lífinu. Hveiti, lyftiduft og salt vigtað og blandað vel saman. Sett til hliðar. Ég hélt að það væri til nóg af púðursykri, en helmingurinn var orðinn glerharður. Ó, jæja magn venjulegs sykurs var aukið á móti. Í þessari uppskrift er smjörið brætt og kælt áður en því er blandað saman við sykurinn. Öllu hrært vel saman. Eggjunum skellt út í og hrært mjög vel. Deigið þarf að vera létt og ljóst líkt og sagði í gömlu uppskriftabókinni. Tíminn á meðan hrærivélin puðaði var nýttur til að skera niður súkkulaði, saxa pekanhneturnar sem fundust í allt að fjórum hálftómum pokum víðs vegar í skápunum og vigta kókosmjölið. Hveitinu blandað saman við eggjablönduna. Má ekki hræra of mikið.  Súkkulaðinu, hnetunum og kókosmjölinu rétt blandað saman við. Hætta að hræra!

Deigið virtist frekar þurrt.  Kannski voru eggin ekki nógu stór?

Það bragðaðist þó vel. Virkilega ein af hlunnindum þess að vera orðin fullorðin að geta borðað súkkulaðibitakökudeig eins og maður vill…

Aðaltrixið við súkkulaðibitakökurnar er þó baksturinn. Ofninn þarf að vera nægjanlega heitur, en ekki of og það má alls ekki baka þær of lengi (170 gráður, fyrir miðju). Aðeins þannig að sykurinn nái að bráðna og þær fletjast út. Annars verða þær alltof harðar þegar þær kólna. Eiga að vera mjúkar í miðjunni, – „chewy“ eins og Bakstursfíkilinn segir í uppskriftinni. Sleppti þó að snúa plötunni við eftir fyrstu tilraun.

Það var kominn tími á fundinn með formanninum. Ég tvísteig. Ætti ég að taka súkkulaðibitaköku með? Liti það skringilega út? Kannski ættu ekki áhugasamir umsækjendur um ráðherrastól að baka? Allavega pottþétt ekki að borða deig. Hvað þá að bjóða verðandi forsætisráðherra með sér.

Á endanum fór ég ein, – án köku eða deigs.

Þetta kæmi allt í ljós.

 

Pekanhnetu, kókos og súkkulaðibitakökur
 
Höfundur:

Hráefni
 • 2 bollar og 2 msk hveiti (300 g)
 • ½ tsk lyftiduft
 • ½ tsk salt
 • 12 msk smjör, brætt og kælt (170 g)1 bolli púðursykur (má vera dökkur eða ljós, 236 g)
 • ½ bolli sykur
 • 1 stórt egg (hugsanlega var deigið of þurrt þar sem eggin voru ekki nógu stór)
 • 1 eggjarauða, úr stóru eggi
 • 2 tsk vanilludropar
 • 1 ½ bolli af súkkulaði, saxað frekar gróft (300 g)
 • 1 bolli pekanhnetur, saxaðar
 • ¾ bolli kókosmjöl

Leiðbeiningar
 1. Sjá pistil.

 

Matseðill vika 19

Niðurstaða viku 18 var 38.983 kr.  Ekki nógu gott.

Skýringin er hluta til kaupin á lambaframpartinum sem var vel ríflegur.  Planið er að nota hluta í kjötsúpu seinna.  Pottþétt bakarísferðin. Gæti líka verið val á lágvöruverslun.

Kassakvittun_vika_18

Matseðilinn í þessari viku er svohljóðandi:

Mánudagur: Sveppasúpa m/ BLT samlokum og súkkulaðibitakökur. Þriðjudagur: Fiskkökur með soðnum kartöflum. Miðvikudagur: Kjötbollur með kartöflumús, brúnni sósu og rababarasultu. Ætla að prófa að baka í ofni kjötbollurnar. Fimmtudagur: Klaustursbleikjuchowder. Föstudagur:  Pizza. Laugardagur: Kjúklingasalat. Sunnudagur: Fiskpæ með gulrótarsalati.

INNKAUPALISTI VIKA 19

Pæ með spínati, beikoni og furuhnetum

Ég byrjaði að borða spínat eftir heimsókn til Þýskalands.  Þar kynntist ég fyrst spínatpizzum og fannst mjög góðar.  Ég lærði einnig að pfefferoni er ekki pepperoni, heldur chili, – sem var ekki alveg jafn gott.

Þetta er uppskrift sem kemur að mestu leyti frá Ina Garten sem skrifaði matreiðslubækurnar Berfætta greifynjan (e. The Barefoot Contessa) og er líka með mjög fína matreiðsluþætti.  Ég ímyndaði mér lengi vel að Ina hlyti að vera gift ítölskum greifa. En með hjálp af Wikipedia komst ég að því að nafnið er frá sérvöruverslun með mat sem hún átti og var titill á gamalli bíómynd með Ava Gardner.

Spinat_pae
Verslunin lék svo hlutverk í einni af uppáhaldsbíómyndunum mínum, Something’s gotta give með Diane Keaton og Jack Nicholson þar sem líka var að finna draumaeldhúsið.

something1
Svona lærir maður alltaf eitthvað nýtt.

Ég bætti við beikoni og dró aðeins úr lauknum, í anda Ina.  Hún hvetur mann til að aðlaga uppskriftirnar, prófa sig áfram og breyta í takt við eigin smekk.

Spinat_pae_2
Pæið er einfalt og hentar vel í lok vinnudags, sérstaklega þar sem ekki þarf að gera deigið.  Þetta reyndist vera frekar stór uppskrift eða pæið meira mettandi en ég átti von á.

Pæ með spínati, beikoni og furuhnetum
 
Undirbúningstími

Eldunartími

Heildartími

 

Höfundur:
Fyrir: 4-6

Hráefni
 • 3 laukar, skornir smátt
 • Salt og pipar
 • 250 gr. beikon, skorið í bita og steikt vel
 • 450 gr. frosið spínat
 • ½ tsk múskat
 • ½ bolli parmesan ostur, rifinn
 • 6 egg
 • 3 msk brauðrasp
 • ½ bolli furuhnetur, ristaðar
 • 250 gr fetaostur, mulinn
 • 6 blöð smjördeig
 • ¼ bolli smjör

Leiðbeiningar
 1. Hitið ofninn í 180°C
 2. Saxið laukinn smátt. Steikið þar til laukurinn er orðinn gylltur. Saltið og piprið. Setjið til hliðar. Skerið beikonið og steikið vel. Hellið fitunni af. Setjið beikonið út í laukinn ásamt spínatinu og múskati og hitið þar til spínatið er heitt í gegn.
 3. Setjið blönduna í sigti og látið vökvann renna vel af á meðan hún kólnar.
 4. Rífið parmesan ostinn. Hrærið saman eggin og blandið varlega saman ostinum og brauðraspinu. Setjið spínatblönduna varlega saman við ásamt furuhnetunum og fetaostinum.
 5. Fletjið aðeins út smjördeigsplöturnar. Smyrjið eldfast form. Setjið smjördeigsplöturnar í botninn þannig að þær nái vel yfir brúnirnar. Hellið fyllingunni í formið og vefjið smjördeiginu yfir.
 6. Bræðið smjör og beri yfir smjördeigið.
 7. Bakið þar til pæið er orðið gullinbrúnt.
 8. Berið fram með fersku salati.

 

Kosningakúrnum lokið (matseðill vika 18)

Kosningakúrnum er lokið. Hann hefur ætíð reynst árangursríkur, – þótt ég mæli ekki sérstaklega með honum. Yfirleitt felst hann í að borða sjaldan og óreglulega, og þá einna helst á skyndibitastöðum. Sódavatn víkur fyrir sykruðum gosdrykkjum, og ég freistast jafnvel til að misnota kaffi.

Ég sem drekk ekki kaffi. Finnst það vont.

Vel skipulagðir innkaupalistar verða eins og hilling í eyðimörkinni á meðan ég rýk enn á ný út í næstu búð til að redda nesti morgundagsins og klósettpappír.

Kostir við kúrinn eru ekki bara að fötin verða rýmri. Við förum öll að sakna venjulegs heimilismatar. Um helgina datt upp úr eldri dóttur minni: „Mamma, getum við ekki haft fiskibollur bráðum? Með kartöflum og brúnni sósu?“ Mömmuhjartað kramdist eilítið og ég lofaði sjálfri mér að langt yrði í næstu ferð á KFC eða Dominos.

Enn á ný yrði tekið til við að skipuleggja máltíðirnar, skrifa innkaupalista og halda utan um útgjöldin.

En fyrst yrðu fiskibollur með soðnum kartöflum og brúnni sósu í matinn.

Að vísu Gríms, enda langbestar 🙂

————–

Matseðill vika 18
Mánudagur: Fiskibollur með soðnum kartöflum, brúnni sósu og hrásalati.
Þriðjudagur: Frönsk lauksúpa
Miðvikudagur: Plokkfiskur með rúgbrauði
Fimmtudagur: Spínat pæ með fersku salati
Föstudagur: Pizzakvöld
Laugardagur: Kjúklingasalat
Sunnudagur: Lamba vindaloo með hrísgrjónum og naan brauði

Innkaupalisti_vika_18

« Eldri færslur

 
Back to top